Algengar spurningar

…smíðað lykla?
   S: já, sennilega er hvergi annarstaðar á landinu jafn mikið úrval lykla og hjá okkur.


…smíðað bíllykla með fjarstýringu?
   S: já, við eigum nokkuð á lager af fjarstýringarlyklum í bíla, einnig lausar fjarstýringar. Við getum líka pantað þessa lykla fyrir bílinn þinn og skorið þá og forritað.


 …opnað peningaskáp?
   S: já, við höfum opnað og gert við allt frá minnstu skápum til hvelfingahurða.


…breytt sílendrum í bílum svo einn lykill passi í alla?
   S: já, eina reglan er að lykillinn passi inní alla sílendrana, þetta gildir líka um húsasílendra.


…lagað læsingar?
   S: já, við getum lagað flestar læsingar og sílendra.


…brýnt hnífa?
   S: nei, við höfum ekki gert út á það, Skóarinn í Hafnarfirði gæti hjálpað til með það.


…skipt um rafhlöðu í fjarstýringarlykli?
   S: Já, við eigum flestar gerðir rafhlaða í fjarstýringarlykla á lager.


Aukalyklar

Hvort sem um ræðir húsnæði, farartæki eða öryggisskápa þá mælum við eindregið með því að fólk eigi aukalykil. Bæði getur skapast mikið vandamál ef eini lykillinn glatast og kostnaður við að gera nýjan verður meiri en ella. Hvað bíllykla varðar er snjallt að eiga aukalykil (þess vegna án fjarstýringar) þar sem upplýsingarnar um heila lykilsins eru geymdar þar. Svona nokkurn veginn eins og að eiga afrit af hörðum diski. Þá er alltaf ódýrara að framleiða nýjan lykil út frá aukalyklinum en ef allir lyklar hafa glatast. Lítið við í verslun okkur að Skemmuvegi 4, blá gata (fyrir neðan BYKO) og fáið ykkur aukalykil.


Bílar

Bílar eru flestir með fjarlæsingar og því eru sílinderar ekkert notaðir. Með tímanum gróa þeir því fastir og þegar fjarstýring bilar eða verður rafmagnslaus þá er engin leið inn í bílinn.

Til að losna við þessi óþægindi er snjallt að smyrja alla sílindera einu sinni í mánuði og snúa þeim með lykli (það er óþarfi að sprauta í svissinn).

Frosinn sílinder: Þegar sílinderar frjósa á veturna má sprauta ísvara inn í sílinderinn og hinkra í smá stund, sprauta því næst olíu og opna svo. (ísvarinn eyðir olíunni sem fyrir er í sílindernum). Við mælum með (og notum sjálf) Pro Long til smurningar sílindera og læsinga sem fæst líka hjá okkur. Gott er að láta smyrja lamir og læsingar reglulega. Lásaspreyið fæst m.a. hér í vefverslun https://lasar.is/product/prolong-spl100-alhlida-olia/ .

Annað gott ráð er að skrúfa niður rúðu, annað hvort bílstjóra- eða farþegamegin, þegar farið er út úr bílnum og hann í gangi (t.d. til að skafa frost af rúðunum), því bílar í gangi eiga það til að læsa sér. Það er ekki gaman að lenda í því að læsa lykla inni í bílnum á leið til vinnu eða skóla.

Að lokum bendum við fólki á að eiga aukalykil að bílnum því aukalykill kostar marfalt minna en nýr bíllykill, þegar allir lyklar hafa glatast.

Heyrið í okkur í síma 510-8888 (velja 3) og athugið hvernig við getum aðstoðað.


Bíllyklar

Ert þú einn af öllum þeim bifreiða-eigendum sem á bara EINN lykil að bílnum?

Vissulega er dýrt að fá aukalykil en það er oft mikið dýrara að týna þessum eina, fyrir utan óþægindin sem því fylgir.

Við getum smíðað og forritað flestar gerðir bíllykla auk þess að bjóða upp á sérpantanir á lyklum með fjarstýringum, á góðu verði.

Ef þú skyldir nú samt vera svo óheppin(n) að týna síðasta lyklinum þá getum við líka smíðað nýjan lykil, komið á staðinn og forritað hann, yfirleitt samdægurs. Hér er beiðni til að fylla út ef allir lyklar eru týndir.


Breyting á svalahurðalæsingu I

Hér fyrir neðan er sýnt hvernig hægt er að breyta algengri læsingu á svalahurð í læsingu með snerli, sílinder og innbrotajárni og lamalæsingu sem auka vörn. Einnig er hægt að kaupa húnasett með snerli að innan og lykillæsingu að utan sem passar í gömlu svalahurðaskránna (þá þarf ekki að fræsa úr eins og hér, sjá punkt nr. II). Smelltu á myndina til að sjá hvernig hægt er að gera þetta skref fyrir skref.

Heyrið í okkur í síma 510-8888 (velja 3) og athugið hvernig við getum aðstoðað.


Breyting á svalahurðalæsingu II

Þetta húnasett er hægt að fá uppsett hjá okkur fyrir þá sem vilja auka öryggi sitt á jarðhæð eða svölum.  Læsist með snerli að innan og lykli að utan og króklæsingar gömlu þriggja punkta skránnar virka enn þá. Hentar þar sem ekki er pláss fyrir hefðbundið láshús í breidd timburs við hlið rúðu. Nokkur vinna er að setja þennan búnað í og er hann ekki seldur í lausu, aðeins með uppsetningu.

Heyrið í okkur í síma 510-8888 (velja 3) og athugið hvernig við getum aðstoðað eða sendið skilaboð hér fyrir tilboð.


Hús

Þegar flutt er í nýtt húsnæði er algjört lykilatriði hvað öryggi varðar að skipta um sílinder eða láta okkur breyta honum fyrir nýjan lykil. Einnig ef um er að ræða gamla eign þar sem sílinder er orðinn mjög slitinn. Heyrið í okkur í síma 510-8888 (velja 3) eða lítið við í verslun okkar og fáið ráð, Skemmuvegur 4, blá gata (fyrir neðan BYKO).

Ef sílinder er úti er gott að smyrja hann með olíu á 1-2 mánaða fresti. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef um prófílsílinder er að ræða, en á honum eru pinnarnir í neðanverðum sílinderunum og safna því í sig ryki úr andrúmsloftinu og ló úr vösunum.

Við mælum með að láshúsin sjálf séu smurð 1-2 sinnum á ári. Þetta er mjög mikilvægt ef um er að ræða 3-punkta skrár en þá skal smyrja í alla hreyfanlega hluti. Þriggja punkta skrár geta verið dýrar og mikilvægt að halda þeim vel við.


HEIMILIN

 • Eru mikil verðmæti á glámbekk á heimilinu?

Öryggiskerfi og öryggisskápar í miklu úrvali, ekki láta ræna verðmætunum. Hér má sjá úrval af lyklaskápum: https://lasar.is/product-category/lyklaskapar/ og öryggisskápar hér: https://lasar.is/product-category/oryggisskapar/

 • Vantar lykla í hirslur, póstkassa eða eitthvað annað?

Komum á staðinn og finnum bestu lausnina, annað hvort með því að smíða lykla eða að skipta um læsingu.

 • Þarf að skipta um lása í póstkössum eða hurðum?

Komum og skiptum um allar þær læsingar sem hugsast getur.

 • Eru læsingar bilaðar?

Þú getur annað hvort komið með bilaðar læsingar til okkar, eða við komið til þín, sótt þær og lagað.  

Innanhússkrár eru í flestum íbúðum, en lyklarnir í þær eru kallaðir skegglyklar eða pípulyklar. Þegar síðasti lykillinn glatast er best að skrifa niður nafn og númer á skránni (sést á kanti) og jafnvel taka mynd af skránni og koma með í verslun eða senda á lasar(hja)lasar.is. Ef ekkert númer/nafn finnst er best að losa skrána úr hurðinni og mæta með hana í verslun þar sem við skerum lykla beint í skrána.


Læsingar og haustin

Eftir gott sumar er haustið að bresta á, rykið í loftinu er búið að setjast inn í sílendra og læsingar, rakinn sem kemur svo með haustinu er ekki góð blanda til að leyfa að frjósa saman inni í læsingunum. Komdu við hjá okkur og náðu þér í góða lásaolíu sem heldur lásabúnaðinum liðugum.

Athugið, sum “olía” er ekki góð til smurningar heldur virkar sem olía í stutta stund en þornar svo upp. Hér er hlekkur á olíu í vefverslun okkar sem við mælum með.


Lyklakerfi

Til að varast fýluferð í verslun er gott að athuga hver er með réttindi til að taka út lykla í lokuðu lyklakerfi. Stundum þarf formaður húsfélags að gefa leyfi. Þá er annað hvort hægt að koma með skriflegt leyfi þess efnis til okkar, eða að formaður sendi tölvupóst á kerfi(hja)lasar.is áður en viðkomandi kemur í verslun og tilgreinir þar hver fær leyfi, hvaða lykil viðkomandi megi láta smíða og hversu mörg eintök. Þetta virðist allt vera flókið en er gert til að tryggja öryggi viðskiptavina okkar. Við mælum einnig með að færa prófkúru á réttan aðila við sölu á eign.

Smíðum lyklakerfi stór og smá.

Óheimil innganga

Lásar hafa lengi haft plastskilti til sölu í verlsun og í lásabíl sem ætlað er til notkunar á eignum þar sem innganga er óheimil. Á bak við plastskiltið, sem fest er fyrir aftan rósettu og hún, er límmiði með símanúmeri og texta sem segir: Hér á má lásasmiður ekki opna nema að fengnu leyfi í síma…


Peningaskápar

 • (a) Ein almenn regla fyrir peningaskápa: ef peningaskápur er farinn að haga sér öðruvísi en hann á að sér ekki loka honum. Kannið hver ástæðan er, leitið til okkar og spyrjið ráða
 • (b) Ef skápurinn er með snúningsskífu – ekki þeyta henni til, það getur breytt tölunum og ekki verður hægt að opna skápinn á eðlilegan hátt.
 • (c) Ef skápurinn er með lykillás – ekki beita afli við að snúa lyklinum, það á ekki að þurfa og getur bæði brotið lykilinn og eyðilagt lásinn. Gott er að eiga aukalykil
 • (d) Ef skápurinn er með stafrænum lás er gott að skipta reglulega um númer. Þegar sama númerið er notað ár eftir ár þá slitna þær tölur á lyklaborðinu og verða á endanum ónothæfar. Ef svo er komið að einhver tala er leiðinleg í notkun þá er rétt að skipta um tölur á skápnum STRAX og nota þá tölur sem ekki voru í notkun áður.
 • (e) Lásar ehf eiga úrval nýrra öryggisskápa á lager. Af og til eigum við einnig til notaða skápa. Notaðir peningaskápar hjá okkur eru alltaf í miklum gæðum, annars væri ekki hægt að gefa þeim endurnýjun lífdaga.

Tegund sílindera

Tegund sílindra er margsskonar og því mikilvægt að biðja um rétta gerð þegar óskað er sílindraskipta.

Hér á eftir fara nokkrar algengustu gerðanna.

Venjulegur ával, þeir eru til stuttir og langir en í dag er alltaf settur langur


Prófílsílinder, þessir eru til í ótal útgáfum, myndirnar sýna hvernig þeir eru mældir, þeir eiga ekki að standa mikið útúr hurðinni og því á aldrei að mæla sílinderinn sjálfann nema hann passi akkúrat. Ef það er snerill að innan þá er hann tekinn í seinni mælingunni. T.d. 35/40sn (35mm að utan og 40mm að innan, þar sem snerillinn er)


Skrúfaður sílinder, ekki mjög algengur hér en kemur þó fyrir, sérstaklega í álhurðum og svo gömlu harðviðarhurðunum. Þar sem þessar tvær gerðir eru ekki eins (og til fleiri) þá þarf að skoða það frekar.


Smekklássílinder, lásinn sjálfur er innan á hurðinni, algengt í eldri hurðum.


Uppsetning á sílinder

Hér koma leiðbeiningar hvernig hægt er að skipta um sílinder.

 1. Skrúfið sneril af á innanverðri hurðinni. Síðan þarf að losa skrúfurnar tvær í enda sílinders.
 2. Gamli sílinder tekinn úr og sá nýji settur í, skrúfur festar í enda sílinders.
 3. Mikilvægt er að vera með rétta stærð af rósettu utan um sílinderinn en hann ætti ekki að standa nema um 2 mm út fyrir rósettu.
 4. Skrúfið rósettuna fasta og gangið frá snerli aftur að innanverðu.

Vissir þú

…að þú þarft ekki að vera með marga lykla að eigninni þinni, við getum samraðað sílendrum af flestum gerðum.

…að ef þú notar bara fjarstýringuna til að opna og loka bílnum, en ekki lykilinn, þá er ekki víst að þú komist inn í bílinn þegar fjarstýringin bilar.

…að við bjóðum ráðgjöf varðandi lásbúnað heimilisins og fyrirtækisins (panta t.d. hér)

…að þegar þú tekur við nýju eða notuðu húsnæði eru yfirgnæfandi líkur á því að þú hafir ekki fengið alla lykla afhenta.

…að þegar hurð með hurðapumpu skellur fast að stöfum, eða lokast alls ekki, er pumpan ekki endilega biluð eða ónýt, við komum og stillum pumpuna.

… að með því að nota höfuðlyklakerfi kemst þú hjá því að óviðkomandi geti látið smíða aukalykil að eign þinni.


Þriggja punkta skrá

Er orðið erfitt og stíft að loka, læsa eða opna hurðina?
Er 3-punkta skrá í hurðinni (sjá mynd)?

Ef þú getur svarað báðum spurningum með JÁ þá þarf að laga sem fyrst, að bíða með það getur kostað margfalt meira. 
Lásar-Neyðarþjónustan getur útvegað flestar gerðir af skrám og veitir uppsetningu og ráðgjöf 510-8888.