Mikilvægt

  • Ein almenn regla fyrir peningaskápa: ef peningaskápur er farinn að haga sér öðruvísi en hann á að sér, ekki loka honum. Kannið hver ástæðan er, leitið til okkar og spyrjið ráða
  • Ef skápurinn er með snúningsskífu – ekki þeyta henni til, það getur breytt tölunum og ekki verður hægt að opna skápinn á eðlilegan hátt.
  • Ef skápurinn er með lykillás – ekki beita afli við að snúa lyklinum, það á ekki að þurfa og getur bæði brotið lykilinn og eyðilagt lásinn. Gott er að eiga aukalykil
  • Ef skápurinn er með stafrænum lás er gott að skipta reglulega um númer. Þegar sama númerið er notað ár eftir ár þá slitna þær tölur á lyklaborðinu og verða á endanum ónothæfar. Ef svo er komið að einhver tala er leiðinleg í notkun þá er rétt að skipta um tölur á skápnum STRAX og nota þá tölur sem ekki voru í notkun áður.
  • Öryggisskápar eru oftast nokkuð sterkar hirslur en það þýðir ekki að það sé í lagi að skella hurðinni eða þjösnast á annan hátt á honum, til að skápurinn þjóni hlutverki sínu sem best, haldist öruggur bæði í notkun og sem geymsla, þá þarf að fara með hann eins og önnur húsgögn.

Opnun á öryggisskáp

Þegar lás eða lykill bilar eða lyklar eða tölur týnast þá þarf að fá skápinn opnaðan á annan hátt. Lásar ehf er með tvo starfsmenn sem eru félagsmenn SAVTA (Safe And Vault Technicians Association) og við erum einstaklega vel búin til opnunar flestra öryggisskápa, hvort sem þeira eru með stafræna lása, snúningsskífur eða lykillása.
Opnun byrjar alltaf á því að fá sendar myndir og mál á lasar(hja)lasar.is, þá er farið í forvinnu við að meta opnunina og hvað hún muni kosta svo er fundinn tími sem hentar. Opnun sumra skápa getur tekið nokkra klukkutíma á meðan aðrir eru opnaðir á mínútum. Opnanir miðast venjulega við það að skápurinn verði að fullu nothæfur á eftir.


Öryggisskápar val

Þegar þú færð þér öryggisskáp er að mörgu að huga…
…er hann fyrir heimili eða fyrirtæki – oft er stór munur á hvernig skáparnir eru notaðir og hvernig meðferðin er á þeim
…þarf hann að vera eldtraustur eða ekki – venjulegir öryggisskápar eru ekki eldtraustir en þá brennur pappír sem er inni í skápnum strax og eldtunga nær skápnum, eldtraustir skápar geyma pappír óskemmdan við rétt rúmlega 1000°C við ytra byrðið, yfirleitt í 60 – 90 – 120 mínútur, venjulegur eldraustur skápur dugar þó ekki fyrir stafræn gögn en þau þola minni hitabreytingu en pappír.
…hversu mikla innbrotavörn er æskilegt að hafa – hvað verður geymt inni í skápnum? -eru það vegabréfin og annað sem hægt er að fá nýtt eða eru það skartgripir fyrir milljónir? -skápana er hægt að fá í öllum útgáfum.
…hvað þarf skápurinn að vera stór? -oft er valinn passandi skápur í augnablikinu (ekki víst að mikið verði geymt í honum hvort sem er) en augnablikið er fljótt að líða og meira og meira farið að safnast fyrir í skápnum -sem oft þarf að skipta út fyrir stærri eftir ár eða tvö.